141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nákvæmlega um þetta samspil 67. gr. og 111. gr. ætla ég ekki að segja annað á þessu stigi en að ég held að ábendingar hv. þingmanns séu þarfar og nauðsynlegt sé að fara í þetta, hvernig þetta virkar saman, t.d. þegar talað er um þjóðréttarskuldbindingar í þessu sambandi og hvernig það tengist síðan hugsanlegu fullveldisframsali varðandi aðild að Evrópusambandinu o.s.frv. Við skulum athuga að þjóðréttarskuldbindingar geta verið af ýmsum toga og mjög mörg lagafrumvörp eru byggð á þjóðréttarlegum skuldbindingum. Mér finnst langt gengið, eins og gert er í þessum texta, að undanskilja allar slíkar ákvarðanir fortakslaust þjóðaratkvæðagreiðslum að frumkvæði almennings. Mér finnst það mjög langt gengið og ég set miklar efasemdir við þetta ákvæði 67. gr. af þeim sökum.

Varðandi 111. gr. sem ég hef kannski velt aðeins meira fyrir mér; ég játa að ég hef haft meiri áhyggjur af henni sem slíkri. Þar velti ég því upp hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa með skýrari hætti og skýrari framsetningu mismunandi leiðir ef svo má segja. Það er kannski óheppilegt að taka þannig til orða en ég geri það hér, af því að mér dettur ekki betra orðalag í hug á staðnum, að við þyrftum að hafa mismunandi leiðir varðandi mismikið framsal ríkisvalds, þ.e. þeim mun meira sem framsal ríkisvalds er samkvæmt einhverjum ákvörðunum Alþingis þeim mun hærri eigi þröskuldarnir að vera. Mikið framsal ríkisvalds krefjist þjóðaratkvæðagreiðslu og eftir atvikum tiltekins hlutfalls kjósenda sem styður það en minna framsal ríkisvalds krefjist einhverrar einfaldari leiðar en þó kannski vandaðri leiðar með hærri þröskuldum en á við um venjulega lagasetningu.