141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:43]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Loksins tökum við til efnislegrar umfjöllunar tillögur að nýrri stjórnarskrá í þinginu eftir langan og faglegan feril þessa máls. Feril sem þó hefur orðið fyrir áföllum og töfum af ófyrirséðum orsökum á köflum en hefur samt náð fram að ganga og er málið komið hingað á þeim tímapunkti sem við stöndum nú og tökum það til umfjöllunar. Það er fagnaðarefni. Ég fagna því sem alþingismaður að geta komið formlega að efnislegri umfjöllun tillagna að nýrri stjórnarskrá.

Við þekkjum þann feril sem að baki er og það er óþarfi að rekja hann náið úr ræðustóli enda hefur hann verið rakinn hér fyrr í dag en lokahnykkurinn þar á eru tillögur sérfræðingahóps sem skipaður var til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs. Sá hópur gerði allmargar, ég held 75, tillögur að breytingum sem hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur nú gert að sínum, allflestar, og koma þær fram í því frumvarpi sem liggur fyrir. Það má auðvitað deila um það að hve miklu leyti þessar tillögur eru tæknilegs eðlis eða orðalagsbreytingar annars vegar og hins vegar efnisleg atriði.

Það er til dæmis ábyggilega enginn vafi á því að sú breyting að taka upp óbreytta grein um þjóðkirkjuna úr núgildandi stjórnarskrá er efnisleg breyting frá tillögum stjórnlagaráðs en hún kemur af sjálfu sér þar sem spurt var sérstaklega um þetta atriði í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór þann 20. október síðastliðinn og meirihlutavilji kjósenda kom fram um að við skyldum hafa slíkt ákvæði í stjórnarskrá. Þann vilja ber að sjálfsögðu að virða þó að meiri hlutinn hafi ekki verið mjög mikill. Það kemur auðvitað ekki í veg fyrir að Alþingi geti í lögum tryggt rétt lífsskoðunar- og trúfélaga og trúfrelsi í reynd til samræmis við 18. gr. sem hnykkir á því líka.

Þá er það auðvitað efnisleg breyting að bæta við grein um menntun, að virða skuli rétt foreldra til að tryggja að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

Í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram 20. október var sérstaklega spurt um fimm álitamál sem fyrr segir. Niðurstaða kosningarinnar var skýr varðandi flest þau atriði en skýrust var þó niðurstaðan varðandi afstöðu almennings eða kjósenda til hins nýja auðlindaákvæðis sem 74% kjósenda guldu jáyrði við. Það kveður á um að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu eins og stóð í tillögum stjórnlagaráðs en talað er um að þær séu ekki háðar einkaeignarrétti í frumvarpinu, séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar, enginn geti fengið þær til eignar eða varanlegra afnota eða réttindi tengd þeim og aldrei megi selja þær eða veðsetja og fyrir nýtingu þeirra skuli koma fullt gjald. Þetta er mjög mikilvægt nýmæli í stjórnarskránni og eins og kemur fram í skýringum stjórnlagaráðs á það sér langa forsögu sem ráða má af ítrekuðum en hingað til árangurslausum tilraunum stjórnvalda til að koma inn í stjórnarskrá nýju ákvæði um þjóðarauðlindir.

Það er hins vegar umhugsunarefni, sem ég vil nefna hér, að sérfræðingahópurinn lagði til breytingu á þessu ákvæði og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerði hana að sinni, þ.e. að í stað þess að tala um einkaeigu skyldi tala um einkaeignarréttindi í skilningi laga. Ég tel að ástæða sé til að huga mjög vel að merkingarlegu inntaki slíkrar breytingar því að það verður auðvitað að vera tryggt að ekki sé verið að samþykkja eignarhaldskröfu til dæmis núverandi kvótahafa yfir fiskveiðiauðlindinni. Um það efni hafa staðið hatrammar deilur og málaferli og lagaþrætur árum saman. Það má ekki gerast að stjórnarskráin færi þeim sem hlotið hafa forgangsúthlutun að nýtingu þjóðarauðlindar í 30 ár eignarhald yfir þeim nýtingarrétti. Mér finnst mikilvægt að nefna þennan fyrirvara og reisa varúðarskorður við þetta atriði.

Annað mjög mikilvægt nýmæli í tillögum að nýrri stjórnarskrá er náttúruákvæðið, þ.e. 33. gr. sem kveður á um að náttúra Íslands eigi sinn rétt sem öllum beri að virða og vernda og að öllum skuli tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar eins og það er svo fagurlega orðað í þessu ákvæði. Þetta er auðvitað löngu tímabær grein um vernd og stöðu náttúrunnar og á sér langan aðdraganda. Stjórnlagaráð getur þess líka í greinargerð sinni að sambærileg ákvæði um umhverfi og náttúru hafa ratað inn í stjórnarskrár annarra landa og verið meira að segja ítarlegri og afdráttarlausari þar. Það er fagnaðarefni að koma staðfestingu þess í stjórnarskrá að skilningur á mikilvægi umhverfis fyrir heilbrigði og afkomu mannkyns fari vaxandi og að þar með sé tekið undir það í reynd að réttur núlifandi og komandi kynslóða til að njóta náttúrugæða sé ríkur.

Ég fagna líka mjög 35. gr. um upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings varðandi ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á, og að með lögum skuli tryggja almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru sem og heimild til að leita hlutlausra úrskurðaraðila. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði og mikilvægur þáttur í mannréttindum og forsenda ákveðinna lífsgæða, eins og stjórnlagaráð hefur bent á. Þar segir líka réttilega að til þess að geta varið rétt sinn þurfi einstaklingar að njóta aðgangs að upplýsingum og hafa tök á því að taka þátt í ákvörðunum um umhverfismál. Ég fagna þessu mjög. Þetta varðar rétt almennings til heilbrigðra lífsskilyrða en líka til lýðræðislegrar þátttöku til að hafa áhrif á líf sitt og aðstæður.

Þetta tengist öðru sem var sérstaklega spurt um í þjóðaratkvæðagreiðslu og er nú komið inn í frumvarpið, þ.e. spurningunni um jafnt atkvæðavægi í landinu og áhrif þess á lýðræðislega stöðu landshlutanna. Það ákvæði hefur valdið miklum skoðanaskiptum og kemur ekki á óvart að meiri hluti þeirra sem lagðist gegn þeirri breytingu séu íbúar og kjósendur utan af landi. Eins og við höfum rætt hér og hefur komið fram í umræðunni þá mun þessi breyting þýða það að fulltrúum landsbyggðarinnar á Alþingi fækkar mikið frá því sem nú er og rödd landsbyggðarinnar mun þar með dofna. Það er óskemmtileg tilhugsun í ljósi þess áhrifaleysis sem landsbyggðin býr við nú þegar þar sem stjórnsýsla og ákvarðanavald hefur safnast fyrir á höfuðborgarsvæðinu þangað sem meginþorri opinberra fjármuna rennur.

Við getum sagt að prufukeyrsla á jöfnu atkvæðavægi hafi átt sér stað í sjálfri stjórnlagaþingskosningunni en niðurstaða þeirrar kosningar var sú að aðeins tveir utan af landi náðu kjöri af 25 fulltrúum. Þar af leiðandi held ég að það sé mjög mikilvægt að Alþingi geri ráðstafanir til að jafna lýðræðislega stöðu landshlutanna í ljósi þessarar niðurstöðu því að krafan um jafnrétti á ekki aðeins við um fólk, hún á líka við um samfélagshópa, þar á meðal landsbyggð andspænis höfuðborg. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að beita heimildinni í 39. gr. um að í lögum megi mæla fyrir um tiltekinn fjölda þingsæta, allt að 30, þannig að hann sé bundinn einstökum kjördæmum. Þessa heimild held ég að sé mikilvægt að nýta í löggjöf til að vega upp á móti þeim lýðræðishalla sem annars er hætt við að hljótist af. Í hjarta okkar erum við sammála því að hver maður eigi að hafa jafnt atkvæðavægi á við manninn sem við hliðina á honum stendur en við verðum líka að átta okkur á því hvaða þýðingu það hefur. Jafnrétti samfélagshópa skiptir líka máli í þessu sambandi.

Enn eitt nýmæli í tillögunum sem hlaut gott brautargengi í þjóðaratkvæðagreiðslunni með stuðningi 68% kjósenda var persónukjör. Sú breyting verður vafalítið til góðs ef rétt er á málum haldið en það veltur að sjálfsögðu á útfærslunni. Ég vil í því sambandi leyfa mér að minna á frumvarp hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og fleiri um sama efni þar sem gert er ráð fyrir að kjósandi geti skipt atkvæði sínu á fleiri en einn frambjóðanda þannig að þeir hljóti þá sama brot atkvæðis. Það er dæmi um útfærslu sem ég held að gæti vel gengið upp í þessu samhengi.

Önnur merkileg nýjung sem ástæða er til að nefna og gera að umtalsefni er að hægt sé að leggja fram þingmál að frumkvæði kjósenda, að 2% kjósenda geti lagt fram þingmál á Alþingi. Með því ákvæði er verið að stíga skref í átt til beins lýðræðis sem hefur verið vaxandi krafa í þjóðmálaumræðunni undanfarin ár. Ég get þó ekki látið hjá líða að segja að ég held að við þurfum að fara varlega í þeirri umræðu allri því að hún getur auðveldlega borið okkur á villigötur ef við missum sjónar af markmiðum lýðræðis. Við búum við þingræði sem er í reynd fulltrúalýðræði. Almenningur kýs fulltrúa til að taka veigamiklar ákvarðanir um stjórn landsins og löggjöf og um leið og það er af hinu góða að eiga samtal við kjósendur og leita álits þeirra þarf að gæta þess að sú tilhneiging fari ekki út í hreina ákvarðanafælni og þar með ábyrgðarleysi kjörinna fulltrúa. Sum mál eru þess eðlis að þau verða ekki leyst með vinsældakosningum, t.d. erfiðar ákvarðanir sem varða fjármál ríkisins, neyðarráðstafanir líkt og grípa þurfti til fyrst eftir hrun o.s.frv.

Það er því mjög mikilvægur fyrirvarinn sem kemur fram í 67. gr. frumvarpsins og lýtur að því að hvorki sé hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þetta er til áréttingar því sem ég sagði, að beint lýðræði geti verið af hinu góða sé því beitt í þágu sjálfs lýðræðisins en ekki gegn því eins og getur hæglega orðið ef ekki er rétt að farið. Það hefur gerst hér í þungum og veigamiklum málum sem hafa farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og eru enn ekki útkljáð fyrir vikið.

Frú forseti. Ég get líka tekið undir það sem hér kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, að sumt í þessu frumvarpi ætti kannski meira erindi við lög en stjórnarskrá. Það er nokkuð sem þingið getur með góðri samvisku, finnst mér, íhugað að breyta vegna þess að meginhugsunin í þeim ákvæðum sem ég er að hugsa um í því samhengi getur haldist þó að ákvæðunum yrði breytt. Þar vil ég nefna ákvæðið um að Alþingi geti sjálft ákveðið fjölda kjördæma í landinu en síðan er gert ráð fyrir því í ákvæðinu að fjöldinn sé takmarkaður við átta, ef ég man rétt. Þarna er verið að gefa Alþingi þann rétt að ákveða þetta sjálft og þá finnst mér engin ástæða til að setja einhver fjöldatakmörk á það. Sama gildir um ákvæðið um fjölda ráðherra. Ég er ekki viss um að slíkt ákvæði, um að tiltaka ákveðinn fjölda ráðherra, eigi erindi í stjórnarskrá úr því að megininntak ákvæðisins er það að forsætisráðherra og þingið geti ákveðið fjölda ráðherra. Ég sé þá ekki ástæðu til að vera með fjöldatakmarkanir á því. Þetta er bitamunur en ekki fjár, útfærsluatriði sem þarf ekki að koma við megininntak umræddra ákvæða.

Fagnaðarefnið er að við skulum nú vera komin í efnislega umræðu. Það er mest um vert, tel ég, að við berum gæfu til þess að virða þá miklu vinnu sem liggur hér að baki, virða niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar sem fór fram í haust og útfæra tillögur stjórnlagaráðs á grundvelli þess þjóðarvilja sem er kominn fram. Það sýnist mér að frumvarpið geri og ég vona innilega að þessar tillögur verði ekki pólitískt bitbein í stundarhagsmunum stjórnmálaflokkanna heldur að við (Forseti hringir.) vinnum hér gott og vandað verk.