141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans innlegg og athugasemdir við ræðu mína. Ég held hins vegar að þær áhyggjur sem við deilum að hluta til um kosningakerfið og áhrif jöfnunar atkvæðavægisins — ég held að það mál sé leysanlegt.

Ég er hins vegar ekki nógu sérfróð til að geta kveðið upp úr um það úr þessum ræðustóli hvort þær ráðstafanir sem 39. gr. opnar á eru nægjanlegar einar og sér eða hvort þingið þarf að skýra þetta og skerpa betur með löggjöf. En ég sé ekkert því til fyrirstöðu, jafnvel þó að ákvæðið stæði óbreytt í stjórnarskrá, að þingið geti gert sínar ráðstafanir til mótvægis við þann lýðræðishalla sem við höfum augljóslega bæði áhyggjur af vegna jöfnunar atkvæðavægis.

Fara þarf mjög vel yfir þetta vegna þess að ég held að allir hljóti að vera sammála um að markmiðið hlýtur að vera það að ná fram annars vegar jafnrétti milli fólks með jöfnun atkvæðavægis en líka að halda einhverju ásættanlegu jafnvægi milli landshluta.