141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:14]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að atkvæðisréttur er mannréttindi og allt í góðu með það. En þau mannréttindi geta hins vegar liðið fyrir sjálf sig, má segja, ef þeim er ekki beitt rétt. Það er afleiðingin sem við sjáum af jöfnun atkvæðavægisins, hún getur orðið neikvæð fyrir mannréttindi og lýðræði ef við pössum ekki upp á útfærsluna.

Stundum er talað um að jákvæð mismunun geti átt rétt á sér og ég hef hingað til litið á misjafnt vægi atkvæða í landinu sem jákvæða mismunun í þágu landsbyggðarinnar sem býr við alvarlegt áhrifaleysi og ákveðinn lýðræðishalla. Ég vona því heitt og innilega að þeir sem um þetta fjalla í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og þeir sérfræðingar sem verða kallaðir fyrir þá nefnd, ljái þessu eyra og reyni raunverulega að finna leið til að jafna upp á móti áhrifunum af jöfnun atkvæðavægisins, sem er í sjálfu sér alls ekkert slæmt fyrirbæri eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu. Jöfnun atkvæðavægis er eitthvað sem við í hjarta okkar viljum vera sammála um en við viljum bara sporna gegn neikvæðum áhrifum sem hugsanlega gætu af því hlotist þannig að ekki verði mannréttindahalli á annan hátt.

Læt ég það duga sem svar að þessu sinni enda hef ég á tilfinningunni að ég sé búin að svara þessu þrisvar.