141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú einmitt það sem ég ætlaði að ræða, við erum að reyna að jafna aðstöðumun landsbyggðarinnar sem býr við halla vegna þess að ríkið er allt í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu. Við erum að reyna að jafna þann mun með mismunandi atkvæðavægi. Við eigum bara hreinlega að jafna muninn með því að borga fyrir kostnaðinn, bæði vinnutíma fólksins og eins ferðir.

Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann um 34. gr., þá fer nú að verða gaman. Þar stendur að auðlindir í náttúru Íslands séu háðar einkaeignarrétti og menn eru mjög einbeittir og fókuseraðir á sjávarútveginn. Nú er það þannig að hann skuli vera ævarandi eign þjóðarinnar. Þarf ekki að mati þingmannsins að skilgreina hvað er þjóð? Eða er þjóðin sama og ríkið sem er lögpersóna og alltumlykjandi og sívaxandi? Er það ekki stórhættulegt, því hverjir stjórna ríkinu? Ég vil spyrja hv. þingmann að því hverjir stjórna ríkinu.