141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mjög tilbúinn til að fallast á meiri hluta. Ég hef lagt fram hugmyndir um breytingar með rökum og ég vil að þeim sé tekið eða hafnað með öðrum rökum sem ég eða meiri hlutinn fellst á, það er fínt mál. Ég er að benda á að það er fullt af atriðum, eins og það sem ég benti á fyrr í kvöld, að ef ráðist er inn í landið förum við ekki að kalla saman Alþingi. Það þarf að bregðast við strax og fara í hernaðaraðgerðir. Þess vegna þarf að standa að hernaðaraðgerðir samkvæmt alþjóðalögum og til varnar landsins sé undanþegið. Það gengur ekki að við séum að kalla saman Alþingi í tvo daga á meðan menn ganga um Reykjavík með hríðskotabyssur og ekki má beita hervaldi, það má ekki beita valdi. Ég hef bent á þetta. Mér finnst það vera rök, eða hvað?

Ég hef bent á margt, margt annað sem þarf að laga eins og til dæmis, og mér skilst að búið sé að taka það inn að einhverju leyti, að setja skuli lög um hitt og þetta og að réttindi fjölmiðla skuli tryggð með lögum. Af hverju stendur ekki bara að fjölmiðlar skuli vera réttháir eða frjálsir? Það stóð að frelsi í fjölmiðlum skyldi tryggt með lögum.

Ég vil ekkert vera að þynna út stjórnarskrána út í að það þurfi atbeina Alþingis til þess að stjórnarskráin virki og gildi. Það eru svona atriði sem ég hef bent á. Ég geri ráð fyrir að menn muni fallast á þau rök að einhverju leyti. Svo eru önnur rök sem menn fallast ekki á, þá er það fínt. Ég ætla ekki að vera neinn alvaldur og einstrengingslegur og segja: Þetta eru mínar hugmyndir og samþykkið þær eða ekki neitt. Það er alls ekki svo. Ég kem með hugmyndir sem ég vil að fái umræðu í nefndinni og á Alþingi. Þess vegna gleðst ég yfir því að hér sé umræða um stjórnarskrána.