141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er góð spurning. Mér finnst að við eigum að setja þessi markmið eða tilgang inn í stjórnarskrána og síðan er það verk Alþingis að útfæra hvernig við náum jöfnun atkvæðisréttar og persónukjöri vegna þess að það er ekkert voðalega einfalt. Ég nefni það. Það var rætt um einmenningskjördæmi og landið sem eitt kjördæmi. Tveir pólar. Einmenningskjördæmi geta valdið því að hér myndist gífurlegur lýðræðishalli. Ég geri ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn, ef það er einmenningskjördæmi, fengi bara alla þingmennina. (Gripið fram í: Nei, ekki alveg.) Ekki hlæja að þessu. Í Bretlandi erum við með þrjá flokka og það eru alltaf tveir þeirra sem fá þingmenn en einn fær enga. Það er hárrétt. Segjum að það séu margir flokkar, ef Sjálfstæðisflokkurinn væri með meiri hluta í öllum kjördæmunum fengi hann alla þingmennina. Allir þingmenn yrðu Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki slæmt en mér finnst það ólýðræðislegt. (Gripið fram í: Hann fengi það ekki í Hafnarfirði.) Ekki í Hafnarfirði, það yrði einn samfylkingarmaður á þingi, það verður gaman að sjá hann. Hann kæmist örugglega ekki í ríkisstjórn.

Hvað gerist ef landið er eitt kjördæmi? Flokksræðið vex. Þá er einn maður efstur í hverjum flokki og hann ræður öllu í honum. Þess vegna voru á sínum tíma valin sex kjördæmi, menn eru búnir að gleyma því. Það var sú hugsun á bak við, ekki einmenningskjördæmi, ekki eitt kjördæmi, heldur að hafa þau sex þannig að sex jafnréttháir oddvitar væru í hverjum flokki og flokksræðið minnkaði. Við náum samt þessum tilgangi með því að nálgast einmenningskjördæmin. Það eru 10 í hverju kjördæmi, svona nokkurn veginn, og það þarf 9% fylgi til að koma manni að.