141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég var staddur í heimabæ mínum, Siglufirði, um helgina og var veðurtepptur þar í fjóra daga sökum fannfergis. Í raun var það þannig á tímabili að varla var hundi út sigandi, hvað þá að menn gætu gengið til rjúpna þá helgi, eins og fyrr á þessum vetri. Ég vil þess vegna taka undir með hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni að nauðsynlegt er að fjölga þeim dögum sem menn geta gengið til rjúpna vegna þess tíðarfars sem verið hefur hér á landi á undangengnum vikum.

Við þekkjum þá órofahefð hjá mörgum fjölskyldum, trúlega þúsundum fjölskyldna, að hafa rjúpur í matinn á aðfangadagskvöld og nú er svo komið að margir hafa ekki getað gengið til rjúpna sökum veðurs og þeir sem hafa farið hafa jafnvel lítið veitt. Það er þess vegna mikilvægt að mínu viti, og ég tek undir það með hv. þingmanni, að umhverfisnefnd láti málið til sín taka og að menn reyni að bregðast við og fjölga þeim dögum þar sem menn geta gengið til rjúpna.

Í því samhengi er það líka áhyggjuefni að ríkisstjórnin hefur haft þá megináherslu hvað varðar refa- og minkaveiði að minnka fjárframlög til þess málaflokks sem ekki mun auðvelda blessaðri rjúpunni lífið þennan veturinn. Og ef fram heldur sem horfir stefnir í að minni afföll verði til að mynda í refastofninum vegna þess að heilmikið æti er uppi á heiðum í kjölfar hretsins sem gekk yfir landið fyrr á þessum vetri. Ég tel einboðið að við verðum við áskorun hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar og bregðumst líka við þeirri vá sem stóraukning í refastofninum munum valda íslensku lífríki næsta vor.