141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur gert stöðu efnahagsmála að umtalsefni, og þar sem ég hef rætt um stöðu rjúpunnar og hef lokið þeim málflutningi, þá held ég að ágætt sé að ræða um þann grafalvarlega vanda sem blasir við okkur þar. Ríkisstjórnin reynir að mála myndina þannig að atvinnulausum eða þeim sem eru á skrá Atvinnuleysistryggingasjóðs hafi verið að fækka. Það er allt rétt. En staðreyndin er sú að réttindi almennings hafa verið að minnka vegna þess að það fólk sem hefur verið í lengri tíma á atvinnuleysisskrá er nú komið yfir á framfærslu sveitarfélaganna í landinu. Vandi þess fólks minnkar ekki við það og heldur ekki sveitarfélaganna hvað þau mál varðar.

Þess vegna er mikilvægt að við fjölgum störfum og rekum öfluga atvinnustefnu. Við framsóknarmenn höfum lagt fram ítarlegar tillögur í atvinnumálum á þinginu, bæði á þessu þingi og því síðasta sem því miður hafa ekki fengist afgreiddar. Staðreyndin er sú að við höfum svo fjölmörg tækifæri til þess að auka virðisaukann í samfélaginu, auka tekjur ríkis og sveitarfélaga og hætta þeirri sveltistefnu sem mér finnst að ríkisstjórnin hafi verið að reka hvað varðar ríkisfjármálin, vegna þess að við getum stækkað kökuna, eins og svo oft er sagt, með því að reka öfluga atvinnustefnu.

Við framsóknarmenn funduðum áðan með heilbrigðisstarfsstétt, þ.e. hjúkrunarfræðingum. Það er kreppa í þeirri atvinnugrein. Sá starfshópur, sem er kvennastétt, gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki. Þær fóru yfir það á fundi þingflokksins hvernig kjör þeirra hafa dregist aftur úr kjörum annarra stétta í samfélaginu og fóru yfir þá forgangsröðun sem mér finnst vera gagnrýnisverð þegar kemur að því að virða framlag heilbrigðisstéttanna hér á landi.

Þess vegna er mikilvægt að auka tekjur ríkissjóðs svo að við getum gert betur við starfsstétt eins og hjúkrunarfræðinga. Það hefur því miður (Forseti hringir.) ekki verið reyndin á síðastliðnum þremur, fjórum árum.