141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins inn í umræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar og hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um verðmætasköpun í samfélaginu og taka hana einmitt út frá því sem hv. þingmaður endaði á, þ.e. velferðarkerfinu og heilbrigðiskerfinu.

Hjúkrunarfræðingar hafa verið að senda tölvupósta til þingmanna þar sem þeir fjalla um starfskjör sín. Þingflokkur Framsóknarflokksins átti kost á því að funda með stjórn Félags hjúkrunarfræðinga á þingflokksfundi nú eftir hádegið. Margt mjög athyglisvert kom fram á þeim fundi, meðal annars það að á næstu árum er gert ráð fyrir að færri hjúkrunarfræðingar útskrifist en þeir sem eru á leiðinni á eftirlaun. Það liggur því fyrir að vöntun verður á hjúkrunarfræðingum, bara eðlileg vöntun vegna þess að ungt fólk í dag sækir ekki í hjúkrunarfræði.

Hjúkrunarfræðingar eru í auknum mæli farnir að leita starfa erlendis og stærsti hlutinn fer til Noregs. Það kom líka fram á þeim fundi að í Noregi er gert ráð fyrir að árið 2030 muni vanta 28 þús. hjúkrunarfræðinga til starfa, sogið þaðan mun því halda áfram. Við verðum því að fara að huga að starfsstétt hjúkrunarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólks, það fólk verður að fá leiðréttingu á laun sín, annars töpum við því úr landi. Eina leiðin til að það sé gert, samhliða því að breyta forgangsröðun og veita fjármagn inn í þessa þætti, er að auka verðmætasköpun í samfélaginu. Við Íslendingar eigum öll tækifæri til þess að auka verðmætasköpun í samfélaginu. Það eru fáar þjóðir í heiminum í dag sem eiga jafnmikla möguleika á að auka verðmætasköpun og Íslendingar, en það skortir á viljann til að svo megi verða og það skortir á framtíðarsýnina hjá forustu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki.

Það er einmitt út af (Forseti hringir.) stöðu hjúkrunarfræðinga, stöðu menntakerfisins og stöðu þessa grunns í samfélaginu sem við verðum að auka verðmætasköpun í samfélaginu. (Forseti hringir.)