141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram umræðu sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson og Ásmundur Einar Daðason hófu áðan og fleiri hafa blandað sér í, þ.e. staða mála hjá hjúkrunarfræðingum. Nú er liðið um það bil eitt og hálft ár frá því fjármálaráðherra gerði kjarasamninga við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga sem fólu það í sér að stofnanasamningur skyldi vera hluti af þeim samningnum. Engu að síður er ekki enn búið að gera stofnanasamning á stofnunum ríkisins á því samningstímabili. Á Landspítalanum hefur ekki verið gerður endurnýjaður samningur frá árinu 2007. Á meðan er staðan sú sem menn hafa lýst, við missum fjölda hjúkrunarfræðinga úr landi, töluvert vantar upp á endurnýjun í stéttinni, enda samkeppnisstaðan gagnvart löndum eins og Noregi orðin Íslandi mjög í óhag.

Svo tek ég líka undir það sem hv. þingmenn hafa bent á í dag um hversu undarlegt það er að á sama tíma og stjórnvöld tala fyrir mikilvægi þess að eyða kynbundnum launamun og tala jafnvel um sérstök kynjuð fjárlög þá skuli stærstu kvennastéttirnar dragast aftur úr öðrum hvað varðar kjör eða njóta að minnsta kosti ekki sannmælis í launagreiðslum. Við skulum sammælast um það, þingmenn, að reyna að laga þessa hluti núna við vinnslu fjárlaga og gera stofnunum ríkisins, Landspítala ekki hvað síst, kleift að uppfylla ákvæði kjarasamninga um að gera stofnanasamning við hjúkrunarfræðinga.