141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Lengi höfum við Íslendingar haft forskot á Norðmenn, við höfum verið skemmtilegri en Norðmenn. En því miður kappkostar hæstv. ríkisstjórn að gera þjóð okkar leiðinlega og pirraða og þar töpum við því forskoti.

Nú hafa á annað hundrað hjúkrunarfræðingar flúið norrænu velferðarstjórnina og vinna flestir í Noregi en einnig í öðrum löndum Skandinavíu. Um 3 þúsund menntaðir hjúkrunarfræðingar eru á Íslandi og við erum að tapa þeim í stórum stíl úr landi eða í aðra atvinnu. Þetta gengur náttúrlega ekki en er gott dæmi um það vanhugsaða fyrirkomulag sem hæstv. ríkisstjórn leggur höfuðáherslu á, þ.e. að búa til vanda en ekki leysa hann, setja þröskulda og skorður í stað þess að opna dyr og útvíkka möguleika; að sækja fram með því að við vinnum okkur út úr vanda en leysum hann ekki með yfirþyrmandi sköttum sem menn ráða ekki við. Þetta rímar við það sem menn hafa verið að ræða í dag og er rétt að vekja athygli á þessu.

Berlega kom fram hjá hjúkrunarfræðingum á fundi með þingflokki sjálfstæðismanna nú í vikunni að það sem hleypti skriðunni af stað hjá þeim hafi verið sú gjörð ráðherra ríkisstjórnarinnar að hækka laun æðstu manna, hækka þau verulega, en skilja þá sem vinna hvunndagsvinnuna eftir, þá sem eru í þeim verkum sem skipta ekkert síður máli en verk stjórnenda. Þetta er vandmeðfarið og illa er með það farið af hálfu stjórnvalda. Þess vegna þarf að bregðast við sem fyrst til að snúa vörn í sókn, snúa þróuninni við og freista þess að hjúkrunarfræðingar sjái sér fært að vinna í heimalandi sínu en ekki í öðrum löndum.