141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

íslensk tunga á tölvuöld.

[15:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur 16. nóvember, fyrir nokkrum dögum, á föstudaginn var, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Við bárum því miður ekki gæfu til þess hér í þinginu að hafa þessa umræðu í þeirri viku, sem hefði verið við hæfi. Ég skal ekki hafa um það lengra mál en minni þó á að ég skrifaði forseta þingsins í fyrra og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og minntist á hvort ekki væri við hæfi að hafa árlega umræðu um þetta mál og þá í því formi að menntamálaráðherra flytti skýrslu sem gæti orðið um þá ályktun frá Íslenskri málnefnd sem árlega skal gefin út um þetta efni samkvæmt lögunum sem við samþykktum á fyrra þingi, held ég að ég fari rétt með, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. En hvað um það. Þessi ályktun liggur nú fyrir fyrir árið 2012 og er um íslensku á tölvuöld.

Menn hafa undanfarin ár og áratugi talað um nokkuð sterka stöðu íslenskunnar þrátt fyrir aðstæður, þrátt fyrir lítið málsamfélag, sterka stöðu í hverju umdæmi eins og menn kalla það, á hverju notkunarsviði. Eitt af þessum umdæmum er opinber stjórnsýsla, annað umdæmi eru skólarnir, og fjölmiðlarnir og fjórða umdæmið eru bókmenntirnar og víða er sannarlega hægt að vera stoltur. Í bókmenntunum ber það til tíðinda að á þessu ári eru gefin út fleiri íslensk skáldrit en nokkru sinni og margir höfundar njóta einnig hylli hjá öðrum þjóðum en skrifa áfram á sínu móðurmáli.

Hins vegar hefur það blasað við í eina tvo eða þrjá áratugi að við yrðum að leggja á okkur vinnu og fé við að halda stöðunni þegar lengra kæmi fram á tölvuöld. Ýmislegt hefur gerst á því sviði hjá áhugamönnum, fræðimönnum, frumkvöðlum og fyrirtækjum og af hálfu stjórnvalda og á engan hallað þó að þar sé nefndur sérstaklega fyrrverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason. En við þurfum að gera betur. Fram undan, og er reyndar í fullum gangi nú þegar, er enn ein byltingin, bylting tölvunnar, bylting netsins sem líkja má við prentbyltinguna á sínum tíma. Hingað til hefur höndin slegið inn stafi eða snúið snerlum eða smellt á einhvers konar takka í þessum stafrænu vélum okkar, í tölvunum okkar, á borði eða í hendi, á spjaldi, í síma, í bílum og heimilistækjum en nú er stjórntækið að verða tungumálið sjálft, bæði skrifað og ekki síður talað. Þetta er ekki framtíðarmúsík, þetta er ekki vísindaskáldsaga. Þetta er að verða og er orðið í öðrum málsamfélögum en okkar nú þegar.

Í nýútkominni skýrslu frá evrópska samstarfshópnum Meta-neti er gerð grein fyrir því hvernig tungumálin og málsamfélögin í Evrópu eru undir þessa þróun búin. Þar kemur í ljós að íslenska er í þeim hópi 21 tungumáls sem stendur höllum fæti. Þau tungumál eru vanbúin að bregðast við þessari þróun og eiga á hættu það sem í íslenskri þýðingu er kallaður „stafrænn dauði“, ekki alger dauði, málið verður áfram til í eldhúsunum og væntanlega í bókmenntunum en hinn stafræni dauði þýðir að eitt notkunarsviðið eða eitt umdæmið yrði tapað, það umdæmi sem skiptir öllu máli fyrir framtíðina sem er innan upplýsingatækninnar og tölvutækninnar sem á eftir að skipta máli; skiptir þegar mjög miklu máli fyrir daglegt líf og á eftir að verða þar alls ráðandi eftir nokkur ár.

Ég nefndi áðan nafn Björns Bjarnasonar. Hann stóð í tíð sinni sem menntamálaráðherra fyrir sérstöku máltækniátaki með styrkjum til að ráðast í mjög þörf verkefni. Styrkféð má heita hafa verið of lítið en aðallega er gallinn sá að þegar þessu verkefni lauk árið 2004–2005 brást það markmið að fyrirtæki á markaði væru nógu stöndug til að geta haldið verkinu áfram. Það markmið brást líka að fræðimenn og vísindamenn á þessu sviði gætu sótt um í almenna sjóði til að færa fram þessi mál. Þess vegna hefur lítið gerst og skal þó ekki vanþakka það sem gerst hefur á þessu sviði undanfarin fimm til sex ár.

Við þurfum að ráðast í þetta verkefni. Við þurfum að bjarga tungumáli okkar frá hinum stafræna dauða sem spáð er eða að minnsta kosti varað við í skýrslunni. Spurningin til menntamálaráðherra er þessi: Hvernig á að fara að því?