141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

íslensk tunga á tölvuöld.

[15:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember, er afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar og því var hvíslað að mér að það væri kannski nær að við syngjum hér í dag: Nú andar suðrið …

En hver er staða tungunnar, hver er staða tungumálsins í hinum stafræna heimi? Hver er staða íslenskunnar í hinum stafræna heimi? Frummælandi, hv. þm. Mörður Árnason sem og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fóru yfir það. Staða okkar þar er ekki góð. Hvernig ætlum við að bregðast við?

Hæstv. ráðherra benti á að hugsanlega væri hægt að nýta sér það svigrúm sem er innan nýsköpunar- og rannsóknasjóða. Ég tel að hv. þingmenn eigi að velta því fyrir sér með hvaða hætti nýsköpun getur þá farið fram í því að styrkja stöðu tungunnar í hinum stafræna heimi, í hinu netvædda samfélagi þannig að ekki blasi við íslenskunni stafrænn dauði, eins og hv. þm. Mörður Árnason nefndi það.

Ég held líka að velta þurfi fyrir sér í sambandi við nýsköpun í kennslufræðinni almennt á hvaða hátt kennarar nýta sér tæknina og hvernig kennslufræðin tekur mið af tækninni en ekki að tæknin stýri kennslufræðinni. Ég held að þurfi að íhuga það.

Virðulegi forseti. Mest af öllu skiptir að við notum og nýtum þetta tungumál okkar, íslenskuna, á sem flestum sviðum samfélagsins, að við gefum ekki eftir í hinu netvædda samfélagi og tökum upp annað tungumál, að við víkjum ekki undan áhrifum enskunnar eða spænskunnar, að við stöndum vörð um móðurmálið og leggjum til þess fjármuni í nýsköpun til að svo megi verða og börn nútíðarinnar og börn framtíðarinnar geti í netvæddu samfélagi notað sitt eigið móðurmál á Íslandi.