141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

íslensk tunga á tölvuöld.

[15:54]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna að sjálfsögðu þessari umræðu og tek undir það að sú könnun sem vitnað var til og Íslensk málnefnd hefur vakið athygli á um stöðu 30 Evróputungumála, sem sýnir að íslenskan stendur höllum fæti á sviði máltækni, er vissulega áhyggjuefni. Inn í veröld okkar er að streyma alls kyns stafræn tæknibylting, leiðréttingarforrit, þýðingarforrit, búnaður til talsamskipta o.s.frv. sem krefst þess, ef við ætlum að fylgja íslenskri málstefnu, að við hugum að því hvaða viðmót eigi að vera á þeirri tækni allri saman.

Einnig hefur komið í ljós að það er tilfinnanlegur skortur á íslensku kennsluefni fyrir þessi tæki og stýrikerfi þeirra. Til dæmis hefur komið í ljós að um 40% íslenskra skóla eru enn með enskt notendaviðmót á Windows stýrikerfinu þrátt fyrir að kerfið hafi verið til á íslensku um langt árabil.

Íslensk málstefna er sjálfsagt svarið við þessu en hún kostar auðvitað peninga. Íslensk málstefna felst í því að stofnanir, öflugar menntastofnanir, fjölmiðlar og aðrir setji sér málstefnu líkt og Háskóli Íslands hefur gert, Ríkisútvarpið og ýmsir fjölmiðlar og að þeirri málstefnu sé fylgt í reynd. En það kostar auðvitað peninga. Ekki er nóg að sannfæra skólastjórnendur til dæmis um að viðmótið í tölvutækninni í skólunum eigi að vera íslenskt, það þarf kannski fjármuni til að fylgja þeirri stefnu eftir.

Það er nú þannig með íslenska tungu að það er ekki bara ástkæra, ylhýra málið sem við lýsum svo á tilfinningaþrungnum stundum, það er líka satt sem Einar Benediktsson sagði „að orð er á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu.“

Sköpunarmáttur íslenskrar tungu er mikill og öflugur. Það er skylda okkar að varðveita þann sköpunarmátt með því að nota hann því að þessi sköpunarmáttur (Forseti hringir.) er menningarmáttur.