141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

íslensk tunga á tölvuöld.

[15:59]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir umræðuna af því að ég tel hana þarfa. Íslenska er okkar mál og verður vonandi okkar mál um ókomna tíð.

Skólinn gegnir mjög mikilvægu hlutverki í því að vernda tungu okkar og þroska tungumálið. Viðburðir eins og Dagur íslenskrar tungu, sem er nýliðinn, Skáld í skólum og fleiri viðburðir sem eru orðnir á dagatali hvers einasta grunnskóla á Íslandi, skipta gífurlegu máli til að vekja athygli á, vinna með og nota íslenska tungu. Við kennum nefnilega ekki gömlum hundi að sitja ef við notum málið ekki í skólanum með börnunum. Af því að börnin eru að læra, börnin eru að tileinka sér hluti og ef við, fullorðna fólkið, skólafólk, stjórnendur og þeir sem eru í þessum sal, höldum vöku okkar og styðjum við bakið á skólunum í því að geta verið með íslenskt viðmót, þá þurfum við ekkert að óttast. Ég er svo heppin að kenna í skóla þar sem íslenskt viðmót er í öllum tölvum og þar læra börnin allar skipanir og allt á íslensku. Það skiptir máli. Ef ég læri hlutina á íslensku þá nota ég íslensku orðin yfir það.

Ég kenni sex ára krökkum og mig langar að segja að við tökum Dag íslenskrar tungu mjög alvarlega í mínum skóla. Við lærðum öll þrjú erindin hans Þórarins Eldjárns, „Á íslensku“. Það skildu ekki allir miðjuerindið af því þar er talað um ígangsklæði og þá var tækifæri til að kenna börnunum það orð. Daginn eftir þegar við vorum búin að syngja og tala um þetta þá spyr lítil stúlka mig: Erum við nú alveg hætt að nota ensku? Ég sagði: Við notum ekki ensku í skólanum. Jú, Íris, sagði hún, stundum spilar þú eitthvað á YouTube.

Á meðan við getum vakið krakkana til umhugsunar um (Forseti hringir.) að passa málið sitt þá held ég að stór sigur sé unninn.