141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

íslensk tunga á tölvuöld.

[16:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að vekja máls á stöðu íslenskrar tungu hér í þinginu. Þar er á ferð þingmaður sem stendur vörð um íslenskuna og tungumálið. Á meðan hans mun njóta við hér hef ég ekki áhyggjur af umræðum í þinginu um stöðu tungumálsins okkar. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór ágætlega yfir stefnu okkar framsóknarmanna í málefnum íslenskrar tungu og tek ég undir það sem hún ræddi þar um.

Við ræðum hér í þessum sal um stjórnarskrá, nýja stjórnarskrá, og hvernig við viljum hafa það grundvallarplagg til framtíðar litið. Í framhaldinu ræðum við svo um það hversu mikilvæg íslenskan er fyrir okkur. Í því samhengi langar mig að beina þeirri spurningu til hv. frummælanda, Marðar Árnasonar, og hæstv. ráðherra hvort þau telji að í því grundvallarplaggi sem hin nýja íslenska stjórnarskrá yrði ætti jafnvel að kveða á um íslenska tungu.

Það er dálítið sérkennilegt að við skulum koma hingað upp hvert á fætur öðru og tala í öðru orðinu um þá alvarlegu stöðu sem íslensk tunga er í og að við þurfum að festa og tryggja tungumálið okkar í sessi. Í öðru orðinu, í umræðum hér á eftir, ræðum við síðan um breytingar á stjórnskipan landsins, stjórnarskránni. Mér finnst því tilhlýðilegt, og að minnsta kosti einnar messu virði, að velta því upp hvort í þeirri vinnu eigi að horfa til þess að geta íslenskunnar sérstaklega í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ef eitthvað er að marka það sem þingmenn hafa verið að ræða hér, um það grundvallaratriði sem tungumálið okkar er, ætti slíkt ákvæði að sjálfsögðu að eiga heima í stjórnarskrá lýðveldisins okkar.