141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

íslensk tunga á tölvuöld.

[16:03]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Til að svara þingmanninum beint tel ég að það komi vel til greina. Fyrstu afskipti mín af þessum málum hér á þinginu fólust einmitt í því að bera fram tillögu sem gerði ráð fyrir að það væri rætt. Á hinn bóginn hafa lögin sem við samþykktum í fyrra, um íslenska tungu og íslenskt táknmál, verið mikið framfaraskref og kannski koma þau í staðinn fyrir þetta.

Ég nefndi áðan, forseti, prentið. Þó að prentbyltingin sé ekki sú sama og tölvuvæðingin nú og erfitt að bera það tvennt saman, er eitt sem við getum lært af því að horfa yfir 14., 15. og 16. öldina, þ.e. að prentbyltingin, eins og hún gagnaðist þjóðunum og var mikið framfaraskref, skildi líka eftir þau tungumál sem ekki komust á bækur sem eldhústungumál, sem tungumál sem hlytu að þynnast út og deyja að lokum. Það er það sama sem fræðimenn, þeir sem gerðu skýrsluna frá Meta-neti, og Íslensk málnefnd eru að vara við. Ef við komumst ekki með tungumálið okkar í gegnum það sem nú er að gerast, kunna örlög okkar að verða svipuð.

Það eru níu tillögur í lok ályktunar um stöðu íslenskrar tungu 2012. Ég hef ekki tíma til að fara í þær hér og ákvað að gera það ekki. Ég beini því til allsherjar- og menntamálanefndar að fara vandlega yfir þessar nýju tillögur og athuga hverjar þeirra hægt er að ráðast í strax og hvernig hægt er að vinna þær áfram.

Ég spyr hæstv. ráðherra hins vegar að því hvort unnt sé að bæta stöðuna í íslenskri máltækni með því að merkja sérstaklega einhverja af þeim styrkjum sem veittir eru úr rannsóknar- og tæknisjóðum af almannafé því að þeir renni til máltækni og fylli að einhverju leyti upp í þau göt sem eru á þessu (Forseti hringir.) sviði núna og hamla þróun tungunnar á nýjum tölvutímum.