141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

íslensk tunga á tölvuöld.

[16:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst langar mig að segja, af því hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi sérstaklega stöðu tungunnar í stjórnarskrá, að ég tel að það sé eitthvað sem við eigum að taka til alvarlegrar skoðunar. Að vísu hafa sumir fræðimenn sagt að það sé fyrst þegar staða tungunnar er fest í lög og stjórnarskrá sem undan fæti fari að halla. Það þarf þó ekki að vera svo. Ég get nefnt mörg dæmi, til að mynda franska tungu sem er fest í frönsku stjórnarskránni frá upphafi og sýnir þann virðingarsess sem tungumálið ber í því samfélagi. Mér finnst full ástæða fyrir okkur þingmenn, ég mun nú ræða það hér á eftir í umræðum um stjórnarskrána, að skoða þá möguleika.

Hvað varðar spurningu hv. þm. Marðar Árnasonar veit ég til þess, og hef rætt það við formann vísindanefndar, að nú eru möguleikar á að fara af stað með nýja markáætlun þar sem styrkir eru ekki eingöngu veittir út frá gæðaviðmiðum heldur ákveðnum áherslum í vísindastarfi. Þar hefur verið rætt um markáætlun á sviði rafrænna innviða og upplýsingatækni sem mér finnst eðlilegt að tengja máltækninni, það hlýtur að vera órjúfanlegur hluti af þessu. Ég mun óska eftir því við Vísinda- og tækniráð að þetta verði rætt, því það var alveg hárrétt sem hv. þingmaður benti á. Hér var unnið mikið starf í þeirri tíð þegar Björn Bjarnason var menntamálaráðherra, en ekki hefur verið samfella í því starfi. Ég tel mjög mikilvægt að við bregðumst við þeirri skýrslu sem hér hefur verið til umræðu og hefur verið lögð fram, því þetta kann að ráða framtíð íslenskunnar. Ég vil svo þakka hv. þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni.

Hv. þm. Mörður Árnason nefndi líka tillögur íslenskrar málnefndar í ályktuninni. Ég vil að lokum segja að við reynum að vinna að þeim í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, en það er líka ljóst að til að fylgja sumum af þessum hlutum eftir þarf fjármagn. Við verðum þá að horfa til þeirra sjóða sem við eigum þannig að ef sátt næðist um slíka áherslu væri það til mikilla bóta að mínu mati.