141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:26]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra ræðu hennar um stjórnarskrána og það er ágætt að heyra málefnalegt innlegg í þessu máli. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það sem hún ræddi um jafnt vægi atkvæða, kjördæmi og fjölda þeirra. Nú var greinilegt í þjóðaratkvæðagreiðslunni að þjóðin er búin að fá nóg af ójöfnu vægi atkvæða og Alþingi sjálft hefur ekki á 70 árum getað jafnað vægi atkvæða þannig að mér fyndist nú ansi langt seilst ef menn ætla að fara að breyta þessu ákvæði.

Mig langar að benda á að kjördæmafjöldinn, átta kjördæmi, tekur mið af svæðisstjórnum sveitarfélaga. Hugmyndin á bak við þetta er að hluta til sú að svæðisstjórnir sveitarfélaga fái meiri aðkomu, óbeint þó, að lagasetningu eða umsögnum um lagasetningu á þingi í stað þess meinta valdamissis sem landsbyggðin verður fyrir með jöfnu vægi atkvæða. Þetta er hugmynd sem oft hefur verið rædd milli þingmanna. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig henni lýst á þessa útfærslu á jöfnu vægi atkvæða.