141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að taka fram að ég hef haft ýmsar skoðanir á þessu máli. Þær hafa tekið reglulegum breytingum enda er ég ekki einn þeirra þingmanna sem stæra sig af því að skipta aldrei um skoðun. Þegar ég settist á þing hafði ég þá skoðun að eðlilegast væri að landið væri eitt kjördæmi og þar með væri atkvæðavægi sjálfkrafa jafnt. Ég hef hins vegar endurskoðað þá afstöðu aðeins vegna þess að mér finnst mjög mikilvægt að tryggja að raddir hvaðanæva af landinu heyrist í þingsal þannig að þingið endurspegli landið allt og ekki eingöngu höfuðborgarsvæðið. Höfuðborgarsvæðið hefur vissulega, og við getum sagt að ég hafi lært af reynslunni í þeim efnum, aukið aðgengi til að mynda að fjölmiðlum og öðru slíku til að vekja athygli á sínum málstað.

Það eina sem ég var að benda á varðandi þennan kafla er að mér finnst að það megi velta því upp hvort það eigi að standa í stjórnarskrá að þessi skipting, sem hv. þingmaður bendir á að sé í raun og veru í samræmi við þá skiptingu sem á við um landshlutasamtök sveitarfélaga, (Forseti hringir.) sé heimil og að kjördæmin geti flest verið átta. Ég velti því fyrir mér hvort það ættu að vera skýrari línur um þetta í stjórnarskrá (Forseti hringir.) eða hvort þetta verði hreinlega sett í kosningalöggjöfina.