141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Sem áður fagna ég þessari umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir alveg ágæta ræðu. Mig langar til að spyrja hann nokkurra spurninga. Í fyrsta lagi er í 36. gr. talað um að með lögum skuli kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð. Telur hæstv. ráðherra eðlilegt að flytja lagasafnið inn í stjórnarskrána? Ég tel að dýravernd eigi að vera í lögum og ég er hlynntur því að hún sé mjög ríkuleg, en þarna kemur spurningin hvort þetta séu húsdýr, gæludýr eða skordýr og hvar maður endar, hvað t.d. um samskipti mín við geitunga?

Í 25. gr. er talað um sanngjörn laun. Hvað telur hæstv. ráðherra sanngjörn laun? Ættu til dæmis lægstu laun að vera 500 þús. kr. eða 1 millj. kr. á mánuði? Hver á að tryggja það?

Síðan er spurningin um heilbrigðisþjónustu „að hæsta marki“. Hvað þýðir eiginlega þegar einhver maður er veikur að það beri að tryggja honum heilbrigðisþjónustu að hæsta marki?