141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég get svarað öllum spurningum. Hér stendur reyndar að allir eigi rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu, ekki heilbrigðisþjónustu, að hæsta marki sem unnt er. (Gripið fram í.) Ég á erfitt með að túlka þau orð nákvæmlega og tel að það mætti fara yfir þetta orðalag, en hvað varðar dýraverndina finnst mér í sjálfu sér framfaraskref að kveðið sé á um hana í stjórnarskrá eins og mannréttindi. Ég tel að það sýni ákveðna samfélagsþróun. Þetta er mér raunar mikið hugðarefni þó að ég geri ákveðinn greinarmun á þeim dýrum sem sannanlega finna til og öðrum. Hv. þingmaður nefndi skordýr þar sem höfum ekki sömu sannanir fyrir því að dýrin finni fyrir sársauka.

Þetta mál hefur verið til umræðu innan siðfræðinnar öldum saman, þ.e. hvernig samfélagið meðhöndlar dýr sín og það er ákveðin (Forseti hringir.) vísbending, getum við sagt, um viðhorf samfélagsins þannig að ég er fylgjandi því að þetta standi í stjórnarskrá, já.