141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:36]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir innleggið og tel að þar hafi hún viðrað ýmsar vangaveltur og jafnvel efasemdir um margt sem má finna í þessu plaggi.

Hæstv. ráðherra velti upp spurningum tengdum 66. gr. og möguleikum á þjóðaratkvæðagreiðslum og þjóðarfrumkvæði og ég spyr hvort hún hafi velt vöngum yfir áliti sérfræðingahópsins sem skilaði umsögn um tillögur stjórnlagaráðs og lúta að Feneyjanefndinni. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Hópurinn vill í þessu samhengi vísa til álits Feneyjanefndarinnar á finnsku stjórnarskránni […] Þar var bent á að Norðurlöndin búa við stöðugleika í stjórnskipan en þjóðaratkvæðagreiðslur hafa að sama skapi verið fátíðar. Skynsamlegt sé að fara varlega í breytingar í þessu efni …“ (Forseti hringir.) Hvert er álit hæstv. ráðherra á þessu ákvæði?