141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst ætla ég að segja bara um 24. gr. að ég er mjög sammála 3. mgr., vil bara nota tækifærið til að segja það. Ég tel að hún endurspegli að mörgu leyti grunnhugsunina í hinu norræna menntakerfi sem snýst um að þetta almenna skólakerfi sem við eigum sé algjörlega nauðsynlegt til að skapa hér gagnrýna borgara sem taka þátt í samfélaginu.

Hvað varðar 4. mgr. hins vegar skil ég hana svo að þarna sé vitnað til þess dóms sem féll hjá Mannréttindadómstóli Evrópu og sneri að máli sem upphaflega kom frá Noregi. Norðmenn breyttu í kjölfarið framkvæmd sinni, getum við sagt. Þar var áréttað að það væri til að mynda eðlilegt í ljósi þess að Noregur byggði á því sem við getum kallað kristna menningu að áfram yrði kennt um hana en mörkin væru dregin við það að trúboð færi beinlínis inn í skólana. Um það snerist sá dómur og þannig skil ég þessa grein. Um þetta höfum við rætt, til að mynda í Reykjavík þar sem settar hafa verið reglur. Það starfar hópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að skýra þessi mál fyrir öllum sveitarfélögum í landinu þar sem við lítum til þessa dóms Mannréttindadómstólsins sem við létum semja álit upp úr. Þarna held ég að það skipti miklu máli að sveitarfélögin (Forseti hringir.) hafi skýran ramma, en ég tel ekki að þetta snúist um að þá eigi að veita fræðslu umfram (Forseti hringir.) það sem þegar hefur verið gert um hin ólíku trúarbrögð.