141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get svo sannarlega tekið undir það sjónarmið sem kom fram í ræðu hv. þingmanns, þingmenn hafa mikið forskot umfram aðra frambjóðendur í prófkjörum. Þeir hafa þennan ræðustól Alþingis til að deila út áhrifum sínum og áróðri en aðrir hafa ekki þá möguleika. Þess vegna mundi ég leggja til að það yrði haft sameiginlegt prófkjör, þinginu lokað í þrjár vikur á undan og þessar þrjár vikur notaðar sem prófkjörsbarátta, ekki fyrr og ekki seinna. Forréttindi þingmanna minnkuðu þá að einhverju leyti.

Í 65. gr. stendur að tíu af hundraði kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Þegar maður fer í gegnum skjalið birtast mjög undarlegir hlutir því að Alþingi getur þá lagt fram gagntilboð, breytt tillögu sinni o.s.frv., það fer í gang ákveðið ferli sem getur tekið allt að eitt ár og jafnvel lengri tíma í vissum tilfellum. Er ekki miklu einfaldara þegar vantraust á milli kjósenda og þings er orðið svona mikið að hafa bara ákvæði um rétt til að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þingrof? Væri það ekki miklu hreinlegra ef kjósendur eru farnir að vantreysta Alþingi með þessum hætti fram og til baka? Þetta á að vera einhver rimma sem getur tekið mörg ár og því spyr ég: Væri ekki miklu betra fyrir alla aðila að það yrðu bara 15 af hundraði? Ég mundi vilja hafa mörkin dálítið hærri, að 12 eða 15 af hundraði gætu krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um þingrof og og þingrof yrði samþykkt hætti þingið og blásið til nýrra kosninga. Væri það ekki miklu betra? Er ekki hlutverk forsetans þá í rauninni að einhverju leyti farið þegar svoleiðis tillaga er komin fram þar sem þjóðin hefði þá bein áhrif á það hvort þingið starfaði áfram?