141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel rétt að jafna vægi atkvæða. Mig langar afskaplega til að vera þingmaður þjóðarinnar, fyrir Ísland allt, og lít svo á að ég sé það. Ég mundi vilja sjá stjórnmálamenninguna breytast þannig að við í þessu litla landi og þingmenn á Alþingi lítum svo á að hagsmunir okkar séu samofnir. Það sé til dæmis engin höfuðborg án landsbyggðar og engin landsbyggð án höfuðborgar og að vegurinn í Árneshreppi sé líka vegur fyrir mig en ekki bara fyrir þá sem búa þar. Ég tel að við eigum að breyta stjórnmálamenningunni þannig að við förum meira í átt til þess að þingmenn allir séu fulltrúar allrar þjóðarinnar en skoðum um leið breytingar á sveitarstjórnarstiginu. Þurfum við kannski að efla það þá? Við verðum að skoða hvaða breytingar fylgja í kjölfarið.