141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég skil ekki alveg túlkun hv. þingmanns á 35. gr. Hún fjallar um að stjórnvöldum beri að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á og að stjórnvöld og aðrir skuli upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun, og tryggja almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana o.s.frv. Þetta hljómar allt sjálfsagt í mínum huga og er í anda þess sem við höfum verið að ákveða í þessum málum hér í þessum sal.

Ég vil svo segja almennt um mannréttindaákvæði, það að verið er að taka dýravernd og umhverfismál inn sem mannréttindi: Ég er mjög sammála því. Ég held að það sé nákvæmlega þessi hugsun í mannréttindamálum sem við verðum að tileinka okkur, þ.e. að mannréttindi snúist ekki síst um að skapa skilyrði og búa til (Forseti hringir.) umhverfi sem við getum öll notið okkar í. Ég hef því miður ekki meiri tíma til að ræða þetta.