141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nánast eins og allir þeir sem hafa talað í þessari umræðu fagnaði hv. þingmaður því að efnisleg umræða sé nú loks hafin. Ég tek undir það. Það skiptir mjög miklu máli í því sambandi að í aðdraganda þessarar umræðu var mikið rætt um það í samfélaginu, meðal annars af fulltrúum stjórnlagaráðs, að hinni efnislegu umræðu væri lokið, að henni hefði lokið með hinni ráðgefandi skoðanakönnun. Með því sem hefur komið fram í umræðunni hér á Alþingi lít ég svo á að það viðhorf þingmanna að hin efnislega umræða sé að hefjast sé vísbending um að við séum líka tilbúin til að hlusta á gagnstæð sjónarmið sem kunna að leiða til breytinga, jafnvel mikilla breytinga, á því plaggi sem liggur fyrir.

Ég vil spyrja hvort hv. þingmaður sé ekki sammála túlkun minni um þetta. Við erum auðvitað stjórnarskrárgjafinn, þingið, samkvæmt núgildandi stjórnarskrá.

Ég er ekki jafnhiminlifandi yfir þessu plaggi og hv. þingmaður, (Forseti hringir.) um það eru skoðanir okkar ólíkar. Ég tel að gera þurfi ýmsar breytingar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki opinn fyrir því að við gerum þær breytingar sem við teljum nauðsynlegar til að gera þetta plagg (Forseti hringir.) að minnsta kosti betra.