141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sannfærður um að allir þingmenn í þessum sal eru sammála um að gera stjórnarskrána þannig úr garði að hún sé sem best. Það er örugglega einlægur vilji okkar allra. Það kann meðal annars að fela í sér að við séum tilbúin til að gera verulegar breytingar frá því sem verið er að leggja til í því frumvarpi sem liggur fyrir.

Ég hef miklar athugasemdir við þetta frumvarp. Hv. þingmaður sagði að það væri mjög skýrt, en sagði jafnframt, sem er alveg rétt hjá honum, að til að skilja sumar greinarnar þurfi maður að lesa skýringartextann. Það finnst mér líka benda til þess að mjög margt megi laga í þessum texta til að gera hann skýrari. Ef við tökum nú bara auðlindakaflann þá varð hann ekki ljós fyrir mér fyrr en ég las skýringartextann. Það væri hins vegar gott að mörgu leyti að fá ýmislegt sem þar segir betur orðað inn í frumvarpstextann sjálfan.

Ég tel líka að því sé þannig varið með þetta frumvarp að þar séu vanbúnir kaflar um Alþingi, mjög sérkennilegar hugmyndir um aðkomu forsetans að myndun ríkisstjórnar og margt fleira sem mætti nefna.

Aðalmálið finnst mér vera þetta: Erum við tilbúin til (Forseti hringir.) að nálgast þetta mál með opnum huga þó að það kunni að leiða til verulegra breytinga og frávika frá því sem stendur í þessu plaggi?