141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það yrði okkur lærdómsríkt, hvað varðar sveitarstjórnarstigið og samspil við ríkisvaldið, að horfa til nágrannaríkja okkar í Skandinavíu þar sem sveitarstjórnarstigið er yfirleitt og víðast mun öflugra. Stundum hefur þessu verið lýst á þann veg að á meðan hlutfallið hér hvað varðar valdskiptingu sé kannski 70:30 ríkisvaldinu í vil sé því þveröfugt farið víða annars staðar. Þetta gerum við með því að færa viðamikla málaflokka, eins og við höfum verið að gera, til sveitarstjórnarstigsins, skoða tekjuöflun sveitarfélaga að sjálfsögðu. Á sama tíma þurfum við líka að huga að samhæfingu sveitarfélaga, ekki viljum við hafa landið of ólíkt eftir þjónustusvæðum eða sveitarfélögum,

Þetta er viðamikið verkefni en ég held að það væri gott plan að þingmenn yrðu í ríkara mæli þingmenn þjóðarhagsmuna í heild sinni. Kjördæmin eru þegar orðin það stór að verulegur munur er orðinn á byggðarlögum innan þeirra hvort sem er. Og á sama tíma að efla sveitarstjórnarstigið.