141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:39]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Ég þekki hv. þm. Guðmund Steingrímsson af því að hlusta vel. Hann talaði um það áðan að hann vilji hlusta á þær breytingartillögur sem væntanlega munu líta dagsins ljós í því ferli sem nú er að hefjast. Það vekur með mér vonir um að hvaðan sem góðar tillögur komi verði á þær hlustað og jafnvel breytt eftir þeim. Ég tel afar mikilvægt að við náum saman um stjórnarskrá sem breið samstaða getur ríkt um. Okkur greinir vissulega á um hvernig þetta er til komið og aðdragandann að þessu. Engum ætti að dyljast afstaða Sjálfstæðisflokksins til ferilsins sem slíkt. En ég held að sjálfstæðismenn upp til hópa vilji tryggja að við búum við góða stjórnarskrá og vandaða stjórnarskrá. Þeir munu leggja sitt af mörkum til að tryggja að svo verði.