141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Þá er einfaldlega mikilvægt að þeir sem hafa efasemdir um einstakar greinar frumvarpsins eða um frumvarpið í heild sinni setji þær efasemdir skipulega fram á þessum tímapunkti. Ég hafna þeirri nauðhyggju sem mér finnst gæta í þessari umræðu. Það er verið að spyrja mikið út í það, finnst mér, hvað við megum og megum ekki núna. Við megum í sjálfu sér allt hér á Alþingi. Það gæti einhver komið með aðra tillögu að stjórnarskrá og við þyrftum að ræða hana. Hv. þingmaður gæti skrifað slík drög og lagt þau hér fram. Það er í sjálfu sér allt leyfilegt, þetta er bara spurning um hvað við teljum rétt að gera og hvað er sanngjarnt.

Hér liggur fyrir frumvarp sem mikil vinna er að baki. Það gæti verið afskaplega hroðvirknislegt frumvarp en það er það ekki að mínu mati. Ég held að þetta sé mun betri stjórnarskrá en stjórnarskráin sem við höfum. Að því sögðu er sjálfsagt (Forseti hringir.) að við förum einfaldlega í það verkefni að gera það betra ef við teljum að þess þurfi.