141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:03]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir góða og málefnalega ræðu. Hún er eiginlega lifandi sönnun þess að við eigum að skipta oftar um þingmenn. Ég vil því taka undir það sem hún lagði til að takmarka kannski tíma þingmanna í starfi en ekki bara ráðherra. Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar, en það er önnur saga.

Mig langar að benda á að við erum tvö af flutningsmönnum þessarar tillögu úr landsbyggðarkjördæmi, tvö af sex. Við erum níu í nefndinni. Við erum bara tvö í þessari nefnd af landsbyggðinni en ég held að það hafi ekki mikil áhrif á niðurstöðuna.

Mig langar að koma að einni spurningu af því að þingmaðurinn talaði um að breið sátt þyrfti að ríkja um stjórnarskrána. Telur hún að breið sátt ríki um núgildandi stjórnarskrá?