141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og góða ræðu. Það er tvennt sem mig langaði að ræða við þingmanninn á þessum stutta tíma. Við framsóknarmenn héldum ráðstefnu í fyrra um tillögu stjórnlagaráðs um sveitarstjórnarstigið. Ég tók einmitt eftir því í ræðu þingmannsins að hv. þingmaður taldi mikilvægt að þessum tveimur aðilum framkvæmdarvaldsins væri gert jafnhátt undir höfði. Það vakti mikla athygli mína þegar ég kom fyrst á þing hvað þar skorti mikið á. Ég veit að hv. þingmaður hefur einnig bakgrunn úr sveitarstjórnarstiginu og mér fannst hugmynd þingmannsins um 2. gr. áhugaverð, að þar sem stendur önnur stjórnvöld sem fara með framkvæmdarvaldið, mundi sveitarfélögum vera bætt þar inn, fyrir utan önnur stjórnvöld.

Það kom einnig fram að þrátt fyrir allt þetta orðskrúð og viðbætur stæði kannski ekkert annað og meira í frumvarpinu en í núverandi stjórnarskrá, fyrir utan það sem síðan er komið í lög. Það er sá svipur sem mér hefur fundist vera á þessum drögum að stjórnarskrá í heild sinni. Ég vil spyrja (Forseti hringir.) þingmanninn hvort hún telji einnig að frumvarpið sé því marki brennt að í því sé mikið af orðum sem segi sum ekki mikið meira en það sem nú segir í sambærilegum greinum stjórnarskrárinnar.