141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Írisi Róbertsdóttur kærlega fyrir ræðuna. Hún var mjög málefnaleg og yfirgripsmikil, sérstaklega varðandi það að hún kom inn á svo marga þætti þessa frumvarps. Þó er ekki hægt að segja að hún hafi drepið á mörgum ákvæðum því að þetta frumvarp er stútfullt af nýjungum og umhugsunarefni. Þess vegna er tíminn mjög skammur sem meiri hlutinn ætlar sér í þetta mál. Ég tek undir það með henni að við ættum frekar að huga að því sem þarf að breyta í stjórnarskránni en að nota þetta umboð í að skrifa nýja.

Ég er einmitt hugsi yfir því sem þingmaðurinn sagði um 39. gr., kosningakaflann. Honum var mjög mikið breytt varðandi þessa grein á milli atriða, má segja, vegna þess að það var búið að setja afar flókið kosningakerfi inn í stjórnarskrána og það var alveg vitað að það yrði að breyta því eins og þetta kom upphaflega frá stjórnlagaráði.

Á bls. 152 í greinargerðinni er fjallað um 39. gr. og þar með að þeirri ákvörðun sé ætlað að koma á persónukjöri og tryggja sem jafnast vægi atkvæða í alþingiskosningunum sjálfum. Svo kemur það fram, eins og þingmaðurinn fór yfir, að í kosningalögum skuli stuðla að sem jöfnustum hlut kvenna og karla. Ég tel að þarna sé um mikla skörun að ræða vegna þess að það er verið að innleiða persónukjör og frelsi til kosninga og jafnt atkvæðavægi, en svo á að þrengja þann rétt með almennum lögum (Forseti hringir.) varðandi kynjakvóta eða þessa jöfnun kynja. Hvernig sér þingmaðurinn þetta fyrir sér?