141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:40]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir hugleiðingar hennar hér og er sammála henni að mörgu leyti.

Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði í ræðustól í gær að það væri mikil ánægja með það að þetta væru minnst tvær umferðir. Þó að ég hafi bara verið hér nokkrum sinnum í starfskynningu veit ég að minnst tvær umferðir geta orðið alltaf tvær umferðir þegar nær dregur jólum, þegar nær dregur þinglokum. Ég hef nefnilega verið svo heppin að mínir starfskynningardagar hafa verið á þessum tíma. Þá hef ég verið hér fram eftir nóttu í góðum félagsskap og fjöri og sé ekki eftir einni mínútu. Þetta er samt hættulegt og verður ekki til þess að lagasetning frá Alþingi verði vandaðri. Að öllu gríni slepptu er þetta það sem við viljum passa og ég held að við ættum að geta verið sammála um að þessi hluti verður að falla brott, það er bara þannig.

Þótt það sé ekki mikið sem við getum haft áhrif á hlýtur þó að vera hægt að sannfæra alla um að ákvæðin eru varhugaverð, alveg sama hvort sem það eru svokallaðar vinstri stjórnir sem ég reyndar tel pínulítið hættulegri en aðrar stjórnir, öllu heldur talsvert miklu hættulegri, eða aðrar stjórnir. Að öllu gríni slepptu er allt of freistandi fyrir alla sem eru við völd að hafa þetta ákvæði inni. Ég vona að það verði fellt út.