141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:44]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og innlegg hans í umræðuna. Ég tel mjög mikilvægt að við gleymum því ekki að auðvitað eiga allir þingmenn að vera þingmenn allrar þjóðarinnar. Það breytir því ekki að eins og aðrir erum við misjafnlega vel inni í málum sem varða ákveðin landsvæði. Það skiptir máli að þingmenn hafi bakgrunn af landsbyggðinni líka.

Ég tók það fram í ræðu minni áðan að við lögum ekki óréttlæti með öðru óréttlæti, að það verði allt í einu réttlæti. Mér finnst kannski hægt að ná einhverri lendingu. Það var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að einn maður hefði eitt atkvæði. Það var samt engin útfærsla samþykkt, það veit enginn hvað þetta þýðir. Eins og hv. þingmaður benti á erum við með kosningakerfi sem hjálpar til á milli kjördæma. Ég veit ekki betur en að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hafi komið inn á atkvæðum úr Norðvesturkjördæmi, ég verð þá bara leiðrétt. Hún er 10. þm. Suðurkjördæmis.

Ég held að þetta sé mjög vandmeðfarið. Ég skil alveg þetta með jöfnun atkvæða og öll þessi læti. Við skulum samt ekki gleyma því sem ég sagði hérna áðan, öll stjórnsýslan og allt embættismannakerfið er í Reykjavík og fólkið búsett í Reykjavík. Með fækkun ráðuneyta og breytingum á Stjórnarráðinu er ekki lítið vægi fólgið í því að vera embættismaður. Og embættismenn eru ekki pólitískt kjörið fólk. Ég er ekki að setja neitt út á þetta fólk, en það breytir því ekki að flestir eru eðlis málsins vegna búsettir á þessu svæði og þekkja kannski best til á höfuðborgarsvæðinu.