141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það liggi nokkuð í augum uppi hver sáttin gæti orðið. Ég held að hún gæti falist í því að við mundum áfangaskipta verkinu. Við tækjum auðlindaákvæðið og endurskoðuðum það eða réttara sagt settum inn í stjórnarskrá. Við næðum samstöðu um ákvæðið um forsetaembættið. Það er algjör óþarfi að breyta réttindakaflanum. Hann er 15 ára gamall og hefur reynst okkur vel í þann stutta tíma sem við höfum haft hann. Það liggur ekkert á að breyta honum og nákvæmlega eins og ég hef rakið tel ég algjöran óþarfa að bæta inn þessum þriðju kynslóðar mannréttindum.

Við ættum einfaldlega að bíða með aðra hluti, ná samstöðu og þróa stjórnarskrána þannig að hún verði stjórnarskrá allra Íslendinga og ekki bara fárra. Við getum sagt að hún ætti ekki að endurspegla flokkspólitískar skoðanir heldur verða stjórnarskrá allra. Þetta held ég að sé leiðin sem við ættum að fara, áfangaskipta verkinu og leggja ofuráherslu á sátt.

Síðan er stóra spurningin í þessu öllu saman hvort þeir sem keyra þetta fram af þessu alefli hafi einhvern áhuga á sáttinni eða hvort það séu aðrir hlutir sem drífa fólk áfram en sáttin og samstaðan.