141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðrúnu Erlingsdóttur kærlega fyrir ræðu hennar. Mig langar að grípa boltann á lofti í lokaorðum hennar þar sem hún hvetur þingmenn og þjóðina alla til að sýna stjórnarskránni virðingu. Ég tek heils hugar undir það og ég ber mikla virðingu fyrir stjórnarskránni.

Það er þá rétt að spyrja þeirrar einföldu spurningar, úr því að verið er að leggja til endurskrift stjórnarskrárinnar að því leyti að það á að taka þá gömlu og setja inn nýja, hvað hv. þingmanni finnst um þau brot ríkisstjórnarinnar sem hún hefur orðið uppvís að nú þessu kjörtímabili og hefur verið dæmd fyrir af Hæstarétti. Hæstv. forsætisráðherra hefur til dæmis verið dæmd brotleg gagnvart jafnréttislögum. Er ekki rétt að við berum virðingu fyrir þeirri stjórnarskrá sem í gildi er í stað þess að skrifa bara nýja þegar eitthvað bjátar á? Þetta er kannski grundvallarspurning í ljósi umræðunnar sem hér fer fram.

Þingmaðurinn fór vel yfir innihald ýmissa greina, en bæði í umræðunni í dag og í gær hafa komið fram ýmsir ágallar og skaranir. Þar sem þingmaðurinn kemur úr einu af þremur landsbyggðarkjördæmunum vil ég inna hana eftir því hvað henni finnst um ákvæðið um jafnan atkvæðisrétt. Það hefur komið í ljós að mjög fáir þingmenn munu koma af landsbyggðinni verði þetta frumvarp að lögum, og það má einnig huga að því að það er mikið tekjustreymi sem kemur af landsbyggðinni í ríkissjóð.