141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér höfum við stjórnarskrá Íslands, lítið fallegt plagg sem hefur staðist tímans tönn frá 1944 og ber fyrstu og annarrar kynslóðar mannréttindi. Mér finnst vanta skilgreiningu á því í þessari 1. umr. Mér finnst lítill gaumur gefinn að því hvað þetta þýðir. Samkvæmt skilgreiningu eru fyrstu kynslóðar réttindi aðallega borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og oft er vísað til þeirra sem frelsisréttinda, eða neikvæðra réttinda. Annarrar kynslóðar mannréttindi eru efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Með þeim er lögð áhersla á rétt allra til viðunandi lífsskilyrða og réttindi ólíkra hópa til sambærilegra meðferða. Annarrar kynslóðar réttindi eru hins vegar kölluð jákvæð réttindi og vísað til þess að þau leggi athafnaskyldur á ríki í ríkari mæli en fyrstu kynslóðar réttindi. Þetta er munurinn á fyrstu kynslóðar réttindum og annarrar kynslóðar réttindum í stjórnarskrá Íslands.

Sú meginbreyting er lögð til í frumvarpi því sem nú liggur fyrir að lögleiða þriðju kynslóðar réttindi í stjórnskipunarrétt Íslands án umræðu. Að mínu mati er verið að lauma inn í mögulega nýja stjórnarskrá því sem felst í þriðju kynslóðar mannréttindum. Þriðju kynslóðar réttindi eru skýrð á þann hátt að þau eru minnst þróuð og eiga sér enn sem komið er litla beina stoð í texta alþjóðlegra mannréttindasáttmála. Þessi flokkur réttinda er ekki síður talinn tilheyra hópi manna og samfélögum en einstaklingum. Réttindin eru ólík þeim sem heyra til fyrstu kynslóðar og annarra kynslóðar réttinda að því leyti að vernd þeirra tengist ekki aðeins skyldum ríkisvaldsins og eftir atvikum einstaklinga heldur getur hún einnig verið háð alþjóðlegri samvinnu. Til þessara réttinda heyrir til dæmis réttur til þróunar, friðar, heilbrigðis, umhverfis og jafnréttis kynslóða.

Þarna höfum við skýrt hvað þetta þýðir, virðulegi forseti. Þarna er verið að vísa í réttindi sem eru mjög lítið þróuð á heimsvísu. Hvers vegna ættum við að fara þessa leið?

Ég tel að okkar mesti réttur samkvæmt stjórnarskrá eigi að vera rétturinn til að vernda borgarana gagnvart ríkisvaldinu. Það hefur svo sannarlega komið á daginn, virðulegi forseti, oft var þörf en nú er nauðsyn. Hér áðan í andsvari minntist ég á það ofurvald og þann lagasetningarmisskilning sem átt hefur sér stað síðan ég tók sæti á Alþingi. Ríkisstjórnin hefur verið dæmd af æðsta dómstóli landsins fyrir að fara með lög í gegnum þingið sem stríða beinlínis gegn stjórnarskránni. Ég hef farið yfir það. Hver fræðingur á fætur öðrum varaði til dæmis við því að Árna Páls-lögin yrðu samþykkt, en þau voru samt keyrð í gegn með litlum meiri hluta atkvæða. Um alvarlegasta hlutinn hefur hins vegar lítið verið fjallað, virðulegi forseti, en það er þegar naumur meiri hluti þingmanna fer með lagasetningu í gegnum þingið sem stríðir gegn stjórnarskrá því að það þýðir skaðabótaskyldu á ríkið. Þannig að ef lagasetningin er ekki vönduð í þinginu og ef almenn lög brjóta í bága við stjórnarskrá, lög sem sett eru á Alþingi, þýðir það skaðabótaskyldu fyrir ríkið. Þetta ber allt að hafa í huga þegar við ræðum hér tillögur að breytingum á stjórnarskránni.

Mér finnst eins og flutningsmenn þessa frumvarps og þeir sem styðja það hafi ekki gert sér nægilega vel grein fyrir því hvað felist raunverulega í frumvarpinu. Það er verið að tala um þessar breytingar eins og þær séu léttvægar, virðulegur forseti. Ég get ekki sætt mig við það því að ég ber virðingu fyrir stjórnarskrá Íslands.