141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:40]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýrt svar og upplýsingarnar. Ég vissi reyndar ekki að þetta ákvæði hefði verið sótt til Suður-Afríku. Það skýrir málið að nokkru leyti. Eins og ég rakti áðan voru ákvæðin um mannlega reisn og réttinn til lífs sótt til þýsku stjórnarskrárinnar og lentu þar af sögulegum ástæðum sem við þekkjum öll, þ.e. vegna hörmungasögu nasismans í Þýskalandi en í framhaldi af því voru þessi ákvæði sett inn þegar var verið að setja Þýskalandi nýja stjórnarskrá eftir stríðið.

Í Suður-Afríku er ljóst að mannleg reisn og réttur til lífs, sérstaklega mannleg reisn, hefur þó nokkuð aðra merkingu en hér á landi þar sem við erum varin af lögum og reglum og stjórnarskránni fyrir ýmsu sem er raunverulega ekki jafnmikil vörn af í ríki eins og Suður-Afríku. Þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að á grundvelli einkaréttar sé hægt að sækja menn fyrir stjórnarskrárbrot í Suður-Afríku. Aftur á móti sé ég ekki alveg tengslin, en það er ekkert að marka því að ég sé ekki ástæðuna fyrir mörgum af þessum þriðju kynslóðar réttindum sem eru sett inn í þessi drög. Það er því ekki eins og ég skilji að fullkomnu leyti samhengið í þessu öllu saman.