141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er margt afskaplega einkennilegt í þessu máli. Eins og ég fór yfir í ræðu minni þá minnir þetta frekar á stefnuyfirlýsingu stjórnmálaflokks, einhvers konar hlaðborð af fallegum orðum. Það hefur náttúrlega komið fram hjá þingmönnum hér bæði í dag og í gær að í frumvarpinu sé meira um orðskrúð en efni.

Ég vil meina að í frumvarpinu séu efnisákvæði sem stríða beinlínis gegn almannahagsmunum þjóðarinnar eins og ég hef farið yfir, t.d. ákvæðið varðandi Árósasamninginn í umhverfiskaflanum, að opna á kæruleiðir fyrir útlendinga hér með stjórnarskrárbundnum rétti ef við ætlum að fara í einhverjar umhverfisframkvæmdir eins og að bora eina borholu eða setja litla stíflu í einhverja á. Þetta er náttúrlega stórhættulegt og skiptir mjög miklu fyrir framtíðarhagsmuni okkar að geta girt fyrir það að þessir aðilar geti komið og kært nauðsynlegar framfaraframkvæmdir hér á landi.

Annað sem ég hnýt um og skil ekki, en hlýtur að vera vegna þess að Evrópusambandsumsóknin er inni, er að með eignarréttarákvæðinu eigi að þurrka út þá vörn sem við höfðum gegn því að útlendingar gætu keypt eignir hér á landi, eins og jarðir og annað. Stjórnlagaráð taldi að það væri algjörlega óþarft og búið er að þurrka það út. Það er í núgildandi stjórnarskrá. Svo við tölum ekki um valdaframsalið sem felst í þeirri grein ef við gerum samninga við erlend ríki.

Það eru mörg mjög hættuleg ákvæði í þessu frumvarpi fyrir þjóðarhag.