141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:44]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka Vigdísi Hauksdóttur þingmanni fyrir ræðuna. Hún ræddi um þrjár kynslóðir mannréttinda. Það allt hef ég kynnt mér og hef mikinn áhuga á því. Ég vil taka það fram að ég tek mannréttindi alvarlega. Þau er ekki léttvæg í mínum huga.

En ég skil ekki af hverju þingmaðurinn leggst gegn sumum af þessum greinum. Hún nefndi sérstaklega í máli sínu 10. gr., um vernd gegn ofbeldi, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggð vernd gegn hvers kyns ofbeldi svo sem kynferðisofbeldi innan heimilis og utan.“

Ég verð að játa að ég skil ekki af hverju þingmaðurinn vill ekki stjórnarskrárbinda það. Mig langar að biðja þingmanninn um að útskýra það fyrir mér.