141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Þarna kristallast sá skilningur sem hv. þingmenn hafa gagnvart þessum frumvarpsdrögum. Þarna erum við komin í þriðju kynslóðar réttindi. Ég er mjög mikill mannréttindasinni. Ég vil að allir borgarar í landinu hafi það gott en þarna er farið fram, eins og ég fór yfir í ræðu minni, með einkaréttarlegar lagagreinar sem ekki eiga heima í stjórnarskrá. Við erum með almenn lög sem vernda okkur nú þegar á þessu sviði. Þessi grein á ekki heima í stjórnarskrá.

Ég er dýravinur og met það mjög mikils að við erum með hrausta og duglega bændur sem skapa okkur gjaldeyri með því að framleiða landbúnaðarvörur hér á landi. Við þurfum þá ekki að flytja þær inn á meðan. En dýraverndarákvæði á heldur ekki heima í stjórnarskrá því að við höfum almenn lög sem fjalla um dýravernd. Þyki fólki eitthvað að þeim lögum ber okkur að uppfæra dýraverndarlög en ekki að setja ákvæði um dýravernd inn í stjórnarskrá sem þriðju kynslóðar réttindi. Það er munurinn og ég held að við þingmenn þurfum öll að fara að sortera grein fyrir grein í frumvarpi þessu; hvað telst til fyrstu kynslóðar mannréttinda, hvað til annarrar kynslóðar mannréttinda og hvað til þriðju kynslóðar mannréttinda. Ég fullyrði að um það bil helmingurinn af frumvarpinu og efni þess á ekki heima í stjórnarskrá. Ég fullyrði að það sé svo hátt hlutfall, enda er ég búin að fara yfir (Forseti hringir.) stjórnskipunarframsal með öllum þessum greinum þar sem lagt er til að frekari ákvæði skuli vera í almennum lögum.