141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Úr því að hv. þingmaður skilur ekki það sem ég segi mælist ég til þess að við fáum lögfræðing á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að fara yfir þriðju kynslóðar réttindi. Þessi réttindi eru vernduð í almennum lögum og þarna er um einkaréttarleg ákvæði að ræða. Ríkið getur ekki með nokkrum hætti verndað einstaklinga inni á heimili gagnvart því ofbeldi sem þar fer fram af því að ríkið er ekki þátttakandi þar. Þá er það farið að skarast á við önnur lög sem varða friðhelgi einkalífsins (Gripið fram í.) þannig að hér er um grundvallarmisskilning að ræða.

Nú skal ég líka segja hv. þingmanni frá því hvaðan þetta ákvæði er komið sem er í frumvarpsdrögunum. Sumir finna danska lykt af þeirri stjórnarskrá sem nú er í gildi og talið er að hún sé dönsk en ekki íslensk. En ég skal lesa það fyrir þingmenn hvaðan 10. gr. í frumvarpsdrögunum kemur, með leyfi forseta:

„Er vísað sérstaklega til suður-afrísku, kólumbísku og brasilísku stjórnarskránna.“

Virðulegi forseti. Þurfum við þurfum á því að halda hér á Íslandi? Ætluðum við ekki að reyna að bæta þá stjórnarskrá sem er í gildi en ekki sækja svona lagagreinar eða tillögur að lagagreinum til þessara ríkja? Það er eitthvað mjög skrýtið í gangi hér.