141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:14]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að orða svar mitt við spurningu hv. þingmanns þannig að ég treysti því að í meðförum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og í meðförum þingsins vöndum við þá vinnu svo að við stefnum ekki öðrum lögum sem gilda í landinu í hættu. Ég ætla einfaldlega að láta það vera svar mitt við fyrirspurn eða andsvari hv. þingmanns. Ég treysti því að hv. þingmenn sem fjalla um frumvarpið vinni verkið þannig að lagatæknileg ákvæði verði skoðuð svo að grunnplaggið sem Alþingi skilar frá sér kalli ekki á margs konar óáran í samfélaginu vegna þess að lögin stangist einhvern veginn á innbyrðis. Ég óska þess. Af því að ég talaði um þingrof þá er það nefnt í 73. gr. og þar er einungis sagt að forseti Ísland rjúfi Alþingi að ályktun þess. Það er hvergi sagt hvenær, hvernig eða af hvaða ástæðum Alþingi getur rofið þing. Ég tel það vera breytingu vegna þess að það hefur oft verið forsætisráðherra sem rýfur þing en engu að síður þarf að fara að Bessastöðum og fá það samþykkt. Þarna er alla vega komið að forseti Íslands rýfur Alþingi að ályktun þess. Mér finnst, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) að það þurfi að skoða þær greinar svo að þær hangi pínulítið saman, þar sem verið er að fjalla um vantraust (Forseti hringir.) sé þess jafnframt getið hvar þingrof fari fram, komi til vantrausts á ríkisstjórnina og verði það samþykkt.