141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er um breytingu á stjórnarskipunarlögum lýðveldisins Íslands og það eru margar breytingar. Þegar hlutum er breytt eru þeir ekki eins og áður. Það er kannski einhver hugsun sem við þurfum að venjast. Ég ætla að reyna að koma inn á fátt eitt af því sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir talaði um.

Fyrst vildi ég þó segja að við skýrðum frá því í gær, fyrst ég og svo hv. þm. Álfheiður Ingadóttir í meiri smáatriðum, að það er ætlun okkar að bera það upp í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að frumvarpið verði bútað niður, ef ég má orða það svo, og sent til þeirra þingnefnda sem málið er skylt. Ef við tökum til dæmis hvenær þing á að koma saman, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spyr í hvaða lögum eigi að segja það. Það er í þingskapalögum og síðan er ýmislegt annað þar, er það ekki líka í þingskapalögum þar sem ákveðið er hvenær samkomudagur Alþingis er? Ég held að það sé rétt og það þyrfti þá ekki að breyta því. Hið sama um lögin um Lögréttu, það yrðu þá lög sem sett yrðu á Alþingi og mundu vera um Lögréttu. Eins og ég skil Lögréttu er það allt annars eðlis en lagaskrifstofa sem hér er talað um. Þá er verið að tala um einhvern hóp manna sem ætti að taka það sérstaklega fyrir ef þingmenn eða hópur þingmanna telur (Forseti hringir.) að frumvarp sem liggur fyrir þinginu standist ekki stjórnarskrá.