141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hreyfir hér við grundvallarmáli. Þegar stjórnarskrá er breytt erum við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sammála um að það beri að gera yfirvegað og í afmörkuðum skrefum, afmarkaðir þættir séu teknir til meðferðar og reynt að ná sátt um þá.

Þegar menn líta til þess hvernig stjórnarskrár hafa orðið til, t.d. sú bandaríska, var ekki þannig frá gengið að full sátt væri á meðal allra þeirra sem unnu að samningu þeirrar stjórnarskrár. Það var reyndar töluvert ósætti og margir af þeim sem tóku þátt í þeirri vinnu sættu sig ekki við niðurstöðuna. Fyrir því voru ýmis rök. Með öðrum orðum, það er ekki við því að búast þegar menn setja saman heila stjórnarskrá að um hana náist fullkomin samstaða.

En þegar stjórnarskrá er orðin til skiptir miklu máli að þær breytingar sem síðan eru gerðar á henni séu gerðar í sátt. Mér finnst það ekki endilega góðs viti að það hafi orðið fullkomin og alger sátt í stjórnlagaráði um allar tillögurnar. Mér finnst það einmitt frekar bera þess merki að gengið hafi verið mjög langt með að ná fram sátt um allan þennan fjölda nýrra tillagna og breytinga og það hafi því miður verið oft á kostnað efnisins, kostnað stjórnarskrárinnar. Það má sjá í ýmsum þáttum, t.d. ákvæðunum um forsetann. Þegar menn skoða þá niðurstöðu sýnist mér í það minnsta að menn hafi komist að málamyndaniðurstöðu sem felst í því að forsetanum er kippt út úr löggjafarhlutverkinu en er samt látinn vera áfram með það hlutverk. Menn virðast hafa fengið hver nokkuð fyrir sinn snúð og náð síðan að vera sammála um málið. Ég tel að það hafi ekki endilega verið mjög gott.

En ég ítreka að þegar komin er niðurstaða eins og með okkar stjórnarskrá, (Forseti hringir.) sem hefur gilt hér og hefur gefið öll þessi dómafordæmi, og þegar á síðan að breyta henni þarf að gera það í afmörkuðum skrefum (Forseti hringir.) og ná sátt um þær breytingar.