141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stóriðjusamningar og loftslagsmál.

[10:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Á fundi Landsvirkjunar sem fram fór í gær kom fram að stóriðjusamningar gætu klárast um mitt næsta ár. Er þar verið að horfa til Bjarnarflags og Þeistareykja. Jafnframt hefur komið fram í opinberri umræðu að meðal þeirra fyrirtækja sem Landsvirkjun horfir til sé kísilverksmiðjan PCC sem er þýskt fyrirtæki.

Ég vil bera það undir hæstv. forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin styðji þessar hugmyndir í raun og veru vegna þess að í fyrsta lagi skortir stuðning við verkefnin í fjárlögum þar sem treysta þarf á hið opinbera, á ríkið, til að tryggja nauðsynlegar samgöngubætur; vegaframkvæmdir annars vegar og hins vegar hafnarframkvæmdir.

Í öðru lagi vil ég bera það undir hæstv. forsætisráðherra hvort það skipti máli að um kísilverksmiðju sé að ræða þar sem kísilverksmiðjur eru talsvert verri í mengunarlegu tilliti en álver, en álver voru ríkisstjórninni ekki þóknanleg fyrr á kjörtímabilinu. Samfylkingin setti stóriðjustopp og Vinstri grænir hafa sérstaklega talað um losun gróðurhúsalofttegunda í andstöðu sinni við áform um uppbyggingu á Bakka. Ríkisstjórnin hefur sett sér metnaðarfull markmið um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda næstu árin og þess vegna skiptir mjög miklu máli að það komi strax fram ef ríkisstjórnin hyggst nota aukna losun gróðurhúsalofttegunda sem ástæðu til að leggja stein í götu þessara verkefna.

Ég kalla því eftir því að hæstv. forsætisráðherra geri strax grein fyrir því þar sem nú liggur fyrir hvers konar iðnaður stefnir í að vaxi í nágrenni við Húsavík, á Bakka, og hvaða fyrirtæki það eru sem hafa lýst áhuga. Landsvirkjun er með áform um að ráðast í virkjanaframkvæmdir. Ætlar ríkisstjórnin að styðja þau verkefni eða hyggst hún leggjast gegn þeim á síðari stigum?